Dagana 10.-17. febrúar lagði hópur starfsmanna Grenivíkurskóla land undir fót og ferðaðist til Valenciahéraðs á Spáni í endurmenntunarferð. Jón Karl Einarsson var fararstjóri hópsins og naut liðsinnis spænsks fararstjóra, Daniel Escriva Cuevas, sem talar reiprennandi ensku og túlkaði fyrir okkur í skólaheimsóknunum.
Við heimsóttum fjóra ólíka skóla. Fyrstu tveir skólarnir sem við heimsóttum eru uppi í fjallahéruðunum norðvestur af Valencia-borg sem er höfuðborg Valenciahéraðs. Þar tók á móti okkur yfirmaður skólastjóranna, „inspector“, en hann hefur með höndum eftirlit með skólastarfi á svæðinu. Hann hélt fyrir okkur góðan fyrirlestur um uppbyggingu menntakerfisins á Spáni. Skólarnir eru í þorpunum Utiel og Oleana, báðir fyrir nemendur 3-12 ára. Annar skólinn er með um 130 nemendur en í hinum eru aðeins 20 nemendur og mikil samkennsla. Margt bar þarna forvitnilegt fyrir augu en einkanlega vakti kennsla yngstu barnanna mikla athygli hópsins. Héraðið er aðalvínræktarhérað Spánar. Jón Karl fararstjóri fór með okkur í víngerð og við fengum ágætis kynningu á vínframleiðslunni og sögu víngerðar á Spáni.
Við heimsóttum einnig aðra tvo skóla í fjallaþorpum Alfarp og Llombai suður af Valencia-borg. Annar skólinn var einkarekinn skóli í anda kaþólsku kirkjunnar, drengjaskóli fyrir 12-16 ára stráka. Þar var mikil áhersla á verkgreinakennslu og landbúnað, enda mikil ávaxtarækt í héraðinu. Sérstök upplifun var að ganga um garðinn við skólann en þar eru t.a.m. gróðurhús, hænur og fjöldi trjáa og plantna af ólíkum tegundum. Barnaskólinn í Alfarp tók einstaklega hlýlega á móti okkur. Þar fluttum við kynningu á skólanum okkar og sungum lag fyrir nemendur. Frétt af heimsókninni og myndir má sjá á heimasíðu skólans: http://mestreacasa.gva.es/web/ceipsantjaumeapostol
Þá fengum við leiðsögn um söguslóðir Valenciaborgar, en borgin á sér mikla og langa sögu. Einnig fórum við í siglingu á Albufera vatninu og skoðuðum gömul híbýli fiskimanna sem stunduðu veiðar í vatninu. Við fengum að tína appelsínur af trjánum og lærðum að búa til Paellu, sem er þjóðarréttur í Valenciahéraði. Frjálsum stundum var varið í ýmislegt dundur og til hópeflis, sumir náðu meira að segja að kíkja aðeins í búðir.
Ferðin var hin ágætasta, bæði fróðleg og skemmtileg. Við sáum margt nýtt og framandi og eigum í fórum okkar sögur til að segja nemendum okkar. Trúlega eigum við eftir að verða í sambandi við skólana, jafnvel gegnum e-twinning verkefni. Í það minnsta höfðu allir áhuga á að koma á meiri samskiptum milli skólanna.
Við erum þakklát öllum þeim sem gerðu þessa ferð mögulega; Jóni Karli fyrir frábært skipulag og leiðsögn, foreldrum, aðstandendum og öðrum velunnurum skólans fyrir að halda uppi kennslu í skólanum 12. og 13. febrúar. Þið stóðuð ykkur frábærlega og nemendur höfðu mikið gaman af þessu uppbroti á kennslunni. Takk kærlega fyrir okkur.
610 Grenivík Sími á skrifstofu: 414-5413 Netfang: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 414-5410 / grenivikurskoli@grenivikurskoli.is