læsisstefna

Lestraráætlun

Í Aðalnámskrá grunnskóla 2011 er læsi talið einn af grunnþáttum menntunar. Fólk hugsar og lærir í gegnum tungumálið sem gerir því kleift að læra hvert af öðru, miðla reynslu og skipuleggja. Ritmálið gerir því fært að geyma meiri þekkingu en mannsheilinn er fær um að geyma og það er því góð viðbót við minnið og veitir aðgang að meiri þekkingu, upplifun og ánægju.

Lestur og lesskilningur

Lestur byggir á málþroska nemendanna. Undirbúningur í lestri hefst í leikskóla þar sem áhersla er lögð á grunnfærni nemenda og kennslan heldur áfram alla skólagönguna í tengslum við allt skólastarf og allar námsgreinar. Mikil áhersla er lögð á að aðstoða og efla nemendur við upphaf lestrarnáms til þess að koma í veg fyrir námserfiðleika á síðari stigum skólagöngunnar. Alla skólagönguna er fylgst með framvindu lestrarnáms nemendanna og áhersla lögð á að mæta þeim þar sem þeir eru staddir á einstaklingsbundinn hátt. Markmið lesturs er að skilja innihald þess texta sem lesinn er. Lesskilningur felur meðal annars í sér að draga ályktanir af því sem ekki er sagt, að lesa á milli lína, að greina uppbyggingu texta og draga út aðalatriði hans. Ýmsir þættir hafa áhrif á lesskilninginn, svo sem fyrri reynsla nemenda, eftirtekt og minni.

Kennsluaðferðir

Hljóðlestraraðferð

Við upphaf skólagöngu er fyrst og fremst gengið út frá aðferðum hljóðlestrar. Byrjað er á að kenna bókstafi og hljóð þeirra og tengja þá síðan saman í lesbúta og orð. Eftir því sem nemendur verða færari í lestrartækninni færist áherslan meira og meira á lesskilninginn.

Byrjendalæsi

Byrjendalæsi felur í sér nálgun með gæðatexta sem nær til allra þátta móðurmálsins þannig að tal, hlustun og ritun er fellt saman í eina heild. Ennfremur eru sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði, setningabygging og málfræði tengd inn í ferlið.

PALS

PALS lestraraðferðin byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi með æfingum sem þeir vinna í 35 til 45 mínútur í senn, þrisvar sinnum í viku. Nemendur vinna saman í pörum og aðstoða hver annan. Kennarinn fylgist með pörunum og aðstoðar þau við að bæta lesturinn.

Heimalestur

Strax við upphaf skólagöngu er nauðsynlegt að nemendur séu aðstoðaðir við að lesa heima. Markmið heimalestrar er að nemendur auki lesfimi sína og bæti orðaforða og málskilning. Foreldrar eru mikilvægir þátttakendur í lesþjálfun barna sinna og er foreldrum nemenda í 1. bekk leiðbeint um aðferðir og mikilvægi heimalestrar í foreldraviðtölum við upphaf skólagöngu. Á yngsta- og miðstigi lesa nemendur daglega í 10-20 mínútur heima, foreldrar fylgjast með og skrá í lestrardagbók.

Yndislestur

Yndislestur er róleg stund þar sem nemendur og kennarar lesa eins oft og við er komið, að lágmarki 4-5 sinnum í viku. Lesefnið er að vali hvers og eins með tilliti til getu þeirra.

Lestrarátak

Í Grenivíkurskóla er sérstakt lestrarátak haldið tvisvar á ári, í nóvember og apríl. Þá er aukinn tími lagður í yndislestur og upplestur og árangurinn gerður sýnilegur á veggjum skólans.

Upplestrarkeppni/upplestrarhátíð

Á hverju ári er haldin upplestrarkeppni meðal nemenda í 4. og 7. bekk. Í 7. bekk taka nemendur þátt í Stóru upplestrarkeppninni. Hefst hún formlega á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, og lýkur í mars. Upplestrarhátíðin hjá 4. bekk er haldin í skólanum að viðstöddum foreldrum, kennurum og nemendum 3. bekkjar. Markmið upplestrarkeppni er að vekja athygli og áhuga nemenda á vönduðum upplestri og framburði, að þjálfa nemendur í upplestri, að koma fram fyrir aðra, að hlusta á aðra, efla sjálfstraust og góða og prúðmannlega framkomu.

Skólabókasafn

Skólabókasafnið er mikilvægur áhrifavaldur í lestrarþjálfun nemenda. Bókasafnið býr yfir fjölbreyttu lesefni sem hentar getu og þroska hvers nemenda. Nemendur hafa aðgang að safninu á skólatíma.

Dagur íslenskrar tungu

Degi íslenskrar tungu er gert hátt undir höfði og Jónasar Hallgrímssonar minnst.

Bókakynning

Á hverju skólaári er stefnt að því að fá rithöfunda sem lesa upp úr bókum sínum fyrir nemendur á Svæði.

Skimanir og próf

Skimanir og próf eru lögð fyrir nemendur til þess að fylgjast með framförum og gera skólanum kleift að koma til móts við þarfir hvers og eins. LOGOS er greiningarpróf sem er notað til að greina lestrarerfiðleika hjá börnum ef kennara þykir ástæða til.

1. bekkur

LtL lesskimun er lögð fyrir í september.

Læsi 1.1. er lagt fyrir í október.

Læsi 1.2. er lagt fyrir í febrúar.

Læsi 1.3. er lagt fyrir í maí. Raddlestrarpróf eru lögð fyrir þrisvar á ári. Viðmið um leshraða við lok skólaárs má sjá í fylgiskjali.

2. bekkur

Læsi 2.1. er lagt fyrir í október.

Læsi 2.2. er lagt fyrir í febrúar.

Lesmál er lagt fyrir í maí.

Raddlestrarpróf eru lögð fyrir fjórum sinnum á skólaárinu, tvisvar sinnum fyrir áramót og tvisvar sinnum eftir áramót. Viðmið um leshraða við lok skólaárs má sjá í fylgiskjali.

3. bekkur

Orðarún 1 - lesskilningspróf.

Orðarún 2 - lesskilningspróf. Lestur – lesskilningur.

Raddlestrarpróf eru lögð fyrir fjórum sinnum á skólaárinu, tvisvar sinnum fyrir áramót og tvisvar sinnum eftir áramót. Viðmið um leshraða við lok skólaárs má sjá í fylgiskjali.

4. bekkur

Orðarún 1 - lesskilningspróf.

Orðarún 2 - lesskilningspróf.

Kötturinn - lesskilningspróf.

Raddlestrarpróf eru lögð fyrir fjórum sinnum á skólaárinu, tvisvar sinnum fyrir áramót og tvisvar sinnum eftir áramót. Viðmið um leshraða við lok skólaárs má sjá í fylgiskjali. Samræmt könnunarpróf að hausti.

5. bekkur

Orðarún 1 - lesskilningspróf

Orðarún 2 – lesskilningspróf

Bolasaga - lesskilningspróf

Raddlestrarpróf eru lögð fyrir fjórum sinnum á skólaárinu, tvisvar sinnum fyrir áramót og tvisvar sinnum eftir áramót. Viðmið um leshraða við lok skólaárs má sjá í fylgiskjali.

6. bekkur

Orðarún 1 - lesskilningspróf

Orðarún 2 – lesskilningspróf

Grimmd- lesskilningspróf

Raddlestrarpróf eru lögð fyrir fjórum sinnum á skólaárinu, tvisvar fyrir áramót og tvisvar eftir áramót. Viðmið um leshraða við lok skólaárs má sjá í fylgiskjali.

7. bekkur

Orðarún 1 - lesskilningspróf

Orðarún 2 – lesskilningspróf

Sögur úr gömlum samræmdum prófum - lesskilningspróf

Raddlestrarpróf eru lögð fyrir fjórum sinnum á skólaárinu, tvisvar sinnum fyrir áramót og tvisvar eftir áramót. Viðmið um leshraða við lok skólaárs má sjá í fylgiskjali. Samræmt könnunarpróf að hausti.

8. bekkur

Orðarún 1 - lesskilningspróf

Orðarún 2 – lesskilningspróf

Sögur úr gömlum samræmdum prófum – lesskilningspróf.

Raddlestrarpróf eru lögð fyrir tvisvar á skólaárinu, einu sinni fyrir áramót og einu sinni eftir áramót. Viðmið um leshraða við lok skólaárs má sjá í fylgiskjali.

9. bekkur

Grp 14 lesskimun

Sögur úr gömlum samræmdum prófum – lesskilningspróf. Prófað er einu sinni fyrir áramót og tvisvar sinnum eftir áramót.

Samræmt könnunarpróf að vori.

10. bekkur

Sögur úr gömlum samræmdum prófum – lesskilningspróf. Prófað er einu sinni fyrir áramót og tvisvar sinnum eftir áramót.

 

 

❖ Lestur er undirstaða lífsgæða

❖ Lestur er undirstaða alls náms

❖ Með lestri eykst orðaforðinn

❖ Með lestri eykst almenn þekking

❖ Með lestri víkkar sjóndeildarhringurinn.