Jafnréttisáætlun Grenivíkurskóla
Jafnréttisáætlun Grenivíkurskóla byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Áætlunin er tvíþætt og nær annars vegar til starfsfólks og hins vegar til nemenda.
Stefna Grenivíkurskóla er að nemendur og starfsmenn, njóti jafns réttar án tillits til kyns, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis, fötlunar, aldurs og stöðu að öðru leyti. Jafnréttisáætlun skólans er ætlað að vera mikilvægur liður í gæðaumbótum í skólanum þar sem aukið jafnrétti tryggir betri nýtingu mannauðs. Skólastarf í anda jafnréttis á einnig að taka mið af mismunandi námshæfileikum nemenda. Tækifæri nemenda eiga ekki að byggja á kynferði heldur áhuga, hæfileikum og færni.
Grenivíkurskóli leggur áherslu á jafnrétti einstaklinga með mannréttindi og margbreytileika að leiðarljósi.
Meginmarkmið
Í Grenivíkurskóla er lögð megináhersla á að allir í skólanum, bæði nemendur og starfsfólk, hafi jafnan rétt og beri jafnar skyldur og að einstaklingum sé aldrei mismunað. Jafnrétti og mannréttindi skulu í hávegum höfð á öllum sviðum skólastarfs. Leitast skal við að hafa kennsluhætti og námsframboð fjölbreytt og verkefni og viðfangsefni sett fram á þann hátt að það höfði til allra, óháð kyni
Gæta skal þess að nota ekki náms- og kennslugögn sem mismuna kynjum eða draga upp úreltar staðalímyndir kynjanna. Jafnrétti og mannréttindi skulu oft og ítarlega rædd á samverustundum og í gæðahringjum. Hvers kyns áreitni og einelti verða ekki liðin í skólanum og bregðast skal við slíku á skjótan og markvissan hátt.
Starfsmenn
- Starfsmenn skulu njóta sömu launa- og starfskjara án tillits til kyns.
- Starf sem er laust til umsóknar skal standa opið fólki af öllum kynjum.
- Öllum starfsmönnum skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.
- Starfsmenn eiga rétt á starfsmannasamtali þar sem m.a. er rætt um jafnrétti til launa og starfa.
- Kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum.
Nemendur
- Gæta skal þess sérstaklega að kennsluhættir og námsefni höfði jafnt til allra kynja.
- Komið skal til móts við ólíkar þarfir nemenda með sveigjanlegu skólastarfi og fjölbreyttum kennsluháttum.
- Unnið skal með jafnréttisfræðslu á samveru á svæði og í gæðahringstímum og leitast skal eftir því að flétta slíka fræðslu inn í allt nám.
- Nemendur eiga rétt á að vinna í fordómalausu umhverfi þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín á eigin forsendum
- Nemendur skulu fá fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf, óháð kyni.
- Kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum.
Framkvæmd
- Valgreinar sem boðið er upp á skulu höfða til allra, óháð kyni.
- Árlega skal kanna líðan nemenda í skólanum og greina niðurstöðurnar út frá kynjum.
- Kennsluhættir og val á námsefni skal ávallt taka mið af jafnréttissjónarmiðum.
- Við gerð námsáætlana og í skólanámskrá skal huga sérstaklega að jafnrétti nemenda.
- Þegar kosið er í nemendaráð skal hlutfall kynja vera sem jafnast og hlutfall eins kyns skal aldrei fara yfir 60%. Í félagsstarfi skólans skal gæta jafnréttis og tryggja að nemendur eigi jafna möguleika á að taka þátt í félagsstarfinu og koma fram fyrir hönd skólans.
- Við ráðningu starfsfólks skal ávallt gætt að jafnréttissjónarmiðum. Sæki jafnhæfir einstaklingar um stöðu skal ráða einstakling af því kyni sem er í minnihluta í starfsmannahópnum.
- Jafnréttisáætlun skal kynnt öllum aðilum skólasamfélagsins. Jafnréttisáætlun skal birt á heimasíðu Grenivíkurskóla.