Matarsóunarátak

Síðastliðnar tvær vikur hafa nemendur og starfsfólk Grenivíkurskóla tekið þátt í matarsóunarátaki, með það fyrir augum að draga sem allra mest úr óþarfa sóun á matvælum í skólanum.

Matarsóun er ekki góður siður. Að sóa nýtanlegum mat er ekki bara sóun á peningum heldur er með slíkri sóun einnig gengið freklega á auðlindir jarðar. Í hinum vestræna heimi er talið að allt að þriðjungur þess matar sem framleiddur er fari í ruslið og miðað við það má gera ráð fyrir að fjögurra manna fjölskylda hendi nýtanlegum mat að andvirði um 250.000 króna á hverju ári.

Það er því til mikils að vinna að draga úr matarsóun og þann lærdóm viljum við að nemendur taki með sér inn á sín heimili. Skemmst er frá því að segja að matarsóunarátakið tókst með mikilli prýði hér í skólanum. Í fyrri vikunni fóru til spillis um 800 grömm af nýtanlegum mat og í þeirri seinni í kringum 1.500 grömm. Miðað við að í skólanum borða að jafnaði um 60 manns á dag má því áætla að hver matargestur hafi einungis hent u.þ.b. 40 grömmum af nýtanlegum mat á tveimur vikum, sem er virkilega góður árangur.

Þetta tókst nemendum og starfsfólki með því að skammta sér minna á diskana í einu og fara frekar fleiri ferðir, og þá spilaði keppnisskapið auðvitað líka inn í, allir voru meðvitaðir um átakið og vildu gera sitt til að minnka matarsóun.

Það er vonandi að nemendur dragi af þessu lærdóm og þó að átakinu sem slíku sé lokið í bili munum við áfram brýna fyrir nemendum að passa upp á að sóa ekki mat. Vonandi taka nemendur þann lærdóm með sér inn á sín heimili og það verður til þess að við hugsum öll betur um nýtingu á þeim matvælum sem við kaupum.