Skólareglur Grenivíkurskóla

SKÓLAREGLUR GRENIVÍKURSKÓLA

Við komum í skólann til að læra og gera okkar besta.

Skólareglur Grenivíkurskóla eru ekkert annað en venjulegar umgengisreglur sem allir ættu að fara eftir. Lykilatriðin í þessum umgengisreglum eru öryggi, umhyggja og virðing.

Nemendur eiga að halda sér að námi og starfi eftir bestu getu allar kennslustundir frá byrjun til enda.

Allir eru á réttum tíma í kennslustund, vel undirbúnir, tilbúnir að takast á við verkefnin.

Öryggi nemenda og starfsmanna sé tryggt:

- Við göngum á göngunum, við megum hlaupa úti.
- Við komum í skólann klædd eftir veðri. 
- Við förum ekki út af skólalóðinni nema með leyfi kennara/skólastjóra.
- Við hjólum með hjálma, bæði á reiðhjólum og hlaupahjólum.  Hjálmur skiptir höfuðmáli.
- Við erum með viðeigandi íþróttaföt og búnað með okkur.
- Við berum sjálf ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum okkar í skólanum.  Því eru best að skilja verðmæti eftir heima.
- Við komum með hollt og gott nesti.  Sælgæti og tyggjó er ekki notað í skólanum.
- Við erum heilbrigð og notum ekki vímuefni.  Meðferð og notkun alls tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er að sjálfsögðu stranglega bönnuð bæði í skólanum og á skólalóð.

Við sýnum hvert öðru umhyggju:

- Við erum kurteis og komum vel fram við alla í skólanum svo öllum líði vel og nái árangri í starfi.

Við sýnum virðingu:

- Við göngum vel um okkar eigur og annarra og merkjum allt okkar skóladót, líka fatnað og skó. Þannig berum við virðingu fyrir hlutum.
- Við tökum tillit til nemenda og starfsmanna, við höfum vinnufrið og truflum ekki starf annarra. Þannig berum við virðingu fyrir öðrum.
- Við leggjum okkur fram um að breyta rétt og förum að fyrirmælum kennara og annarra starfsmanna. Þannig berum við virðingu fyrir okkur sjálfum.

Einelti

- Við leggjum ekki aðra í einelti
- Við reynum að hjálpa þeim sem verða fyrir einelti
- Við segjum fullorðnum frá einelti.
- Við eigum líka að vera með nemendum sem auðveldlega lenda í að vera einir.

Ef skólareglur eru brotnar:
Verði nemanda á að brjóta skólareglur skal viðkomandi kennari eða umsjónarkennari aðstoða nemandann við að finna leið til að bæta fyrir brotið og lagfæra hegðun sína.  Gangi það illa eða brotið telst alvarlegt ræðir skólastjóri við nemandann.  Foreldrum er tilkynnt um atvikið og leitað samvinnu við heimilið til að bæta hegðun nemandans.  Séu brotin það alvarleg að varði líf og heilsu, eða landslög, skal fara með þau skv. lögum og reglugerðum.  Leitað er liðsinnis barnaverndar, heilsugæslunnar, Skóldeildar Akureyrarbæjar og lögreglu eftir eðli málsins.